Vorið bankar á dyrnar með sauðburði og grænna grasi. Þetta gengur nú samt mjög rólega allt saman, nema kannski sauðburður sem byrjaði rólega en hefur svo hellst yfir á örfáum dögum núna síðustu vikuna. Það er nokkuð ljóst að það verður ekki slegið tún hér í Tungufelli 6. júní eins og í fyrra en það er varla hægt að setja út lambrollur eins og haginn er núna. Snjóskaflinn fyrir ofan tún er varla farinn og af illri nauðsyn þurfti að setja lambærnar út á tún.
Nú er saumaskap að vera lokið, fjórir þjóðbúningar tilbúnir til notkunar. Það er kannski gaman að fara aðeins í gegnum sögu þeirra og tilurð.
Fyrstan má nefna gamla barnabúninginn minn sem ég er núna búin að minnka og laga til fyrir Elínu Helgu. Mamma saumaði þennan á mig þegar ég var 7 eða 8 ára, ég man ennþá hvað það var vont að vera í blússunni sem var úr sama efni og svuntan þannig að ég saumaði nýja blússu úr mjúku og þægilegu efni. Svo þurfti ég að stytta hlírana, svuntuna og pilsið og þá smellpassaði þetta bara allt á stelpuna.
Ég verð svo að fá lánaða húfu fyrir hana en ég hef nú ekki tíma til að redda henni á svona stuttum tíma.
Hún getur notað þennan í nokkur ár en svo ætla ég að sauma 19. aldar upphlut á hana kannski fyrir fermingu.
Næstan má nefna 20. aldar upphlutinn minn sem mamma saumaði líka á mig þegar ég var 17 ára. Þá var ég að fara að vinna á hótelinu á Flúðum og við þurftum stundum að uppfarta í upphlut þegar stórir skemmtiferðahópar komu í hádegismat. Það eru örugglega til ófáar myndir af okkur stelpunum út um allan heim því þetta vakti yfirleitt mikla eftirtekt og athygli ferðamanna. Ég vildi nú að þetta tíðkaðist á hótelum ennþá en svo er ekki sem ég veit um.
Borðana gaf hún Ásthildur í Birtingarholti okkur en ég er ekki viss um að hún hafi baldýrað þá samt. Silfrið var á barnaupphlutnum og var keypt hjá Dóru í Gullkistunni. Hún smíðaði svo auka millupar þar sem það voru aðeins þrjú pör til. Ég átti aldrei belti við þennan upphlut en fékk lánað svona hér og þar. Meðal annars fékk ég stokkabelti lánað hjá Lovísu á Hraðastöðum og var ég með það þegar ég fór til Bandaríkjanna með búninginn. Síðan fékk ég Dóru til að smíða belti í stíl við millurnar fyrir ferminguna hennar Maríönnu árið 2009.
Ég fór oft í búninginn þegar ég var skiptinemi í USA, þá var ég stundum fengin til að koma á fundi og svoleiðis til að segja frá Íslandi og íslenska búninginum.
Ég saumaði mér nýtt sett í vetur og líka þurfti smávægilega að víkka upphlutinn þar sem hann var kominn á eindaga með víkkun enda eigandinn aðeins þroskast frá sautján ára aldri.
Upphlutinn hennar Maríönnu saumaði ég sjálf frá grunni, pilsið saumaði ég fyrir ferminguna hans Einars Trausta árið 2012 en þá gat hún notað gömlu peysufata peysuna frá Sesselju langömmu.
Við vorum búnar að ákveða að hún fengi upphlut fyrir útskriftina þannig að það var ekki um annað að velja en að drífa sig í að sauma upphlutinn. Ég ákvað því að sauma hann samhliða upphlutinum mínum í vetur sem ég og gerði. Eins og ég hef tíundað hér áður á blogginu lenti ég í vandræðum með silfrið en það bjargaðist allt á síðustu stundu og er það nú allt komið á. Hún notar gömlu blússuna mína og svuntuna sem mamma saumaði handa henni um sama leiti og pilsið.
Að lokum er það svo 19. aldar upphluturinn sem ég saumaði á námskeiði í vetur, hann er hluti af faldbúninginum sem ég er að sauma og er því hver litur og samsetning úthugsuð í samræmi við það. Silfrið keypti ég gamalt og fékk þar bæði englamillur og beltispar og doppur. Ási í Annríki steypti eitt sett af millum fyrir mig til að ég gæti haft fimm pör og gyllti allt saman.
Borðana baldýraði ég á námskeiði í haust en svuntan er gömul sem ég átti. Ég saumaði aðra svuntu á námskeiðinu en sú mun fara betur með peysufötunum þegar ég verð búin að sauma mér nýja peysu.
Svona er sagan á bak við búningana sem núna eru tilbúnir og munu verða notaðir á næstu vikum. Myndatökur, tvöföld útskrift og messa að ekki sé minnst á 17. júní. 🙂