Margir eiga upphlutinn í skápnum, hann er bara þarna og lætur lítið fyrir sér fara. Mamma átti hann eða kannski amma eða langamma, allavega einhver frá því í gamla daga.

Þessi mynd er náttúrulega bara frábær þar sem litið er stórt upp til stóru systur.
Það er að koma 17. júní og ég opna fataskápinn til að velja mér föt við hæfi, ég gjóa augunum á fatapokann með upphlutspilsinu og í gegnum huga mér skýst sú hugsun að það væri nú gaman að vera í upphlut á þessum degi, ég bægi þessari hugsun frá mér enda passar hann ekki á mig. Ég vel mér eitthvað úr skápnum til að fara í. Það líður ár og aftur er kominn 17. júní. Ég fer enn og aftur í fataskápinn og enn og aftur er ég komin með hendurnar á fatapokann með upphlutspilsinu. Mig langar nú að skoða smá og opna pokann og finn kassann með upphlutnum. Silfrið er áfallið og svart en efnið er svo fallegt, pilsið er fallega rykkt og lítur bara nokkuð vel út. Ætli það sé eitthvað hægt að gera í þessu hugsa ég þegar ég pakka þessu saman og vel mér eitthvað úr fataskápnum. Enn líður árið og þetta vor er ég að ferma, í örvæntingu reika ég um búðirnar og reyni að finna eitthvað fyrir fermingarmömmuna. Ég kem heim með kjól sem ég er alls ekki sátt við og set hann inn í fataskáp. Rétt í þann mund sem ég loka skápnum þvælist pokinn með upphlutspilsinu fyrir mér og ég fæ hugmynd. Ég sest við tölvuna og gúgla „að breyta upphlut“ þar fæ ég upplýsingar um hvert ég á að snúa mér til að láta lagfæra upphlutinn, fægja silfrið og koma þessari flík í nothæft ástand.
Fermingadagurinn rennur upp, ég stend stolt og ánægð við hlið dóttur minnar sem heillaðist svo af upphlutnum mínum að hún hætti ekki fyrr en ég saumaði upphlut handa henni líka. Nú á ég ekki í neinum vandræðum með að velja mér föt þegar mikið liggur við. Upphluturinn er alltaf við hæfi og alltaf fallegur.
Í mörgum fataskápum leynist upphlutur og í mörgum tilfellum þarf ekki að vera mjög kostnaðarsamt að lagfæra hann til að hægt sé að nota hann. Stundum þarf bara eitthvað tilefni eða að koma í framkvæmd langþráðum draumi.
Haldið verður námskeið í þjóðbúningasaumi í uppsveitum Árnessýslu og nágrenni á vorönn 2017. Á námskeiðinu er hægt að sauma 19. eða 20. aldar upphlut eða peysuföt, einnig er hægt að lagfæra búninga og sauma sér svuntu eða blússu.
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í slíku námskeiði þá máttu hafa samband við Ellu Jónu í síma 8936423 eða senda póst á ellajona@outlook.com. Einnig er hægt að fá upplýsingar í gegnum Facebook hópinn Áhugafólk um þjóðbúninga á suðurlandi.