Nú er hann lagstur í norðanátt og kulda sem er ágætis gluggaveður og maður hefur bara góða afsökun til að vera bara inni og sauma.

Þupphlutssilfurjóðbúninganámskeiðið er núna búið og 19. aldar upphluturinn nánast klár, bara eftir að festa krókana á.  Verið er að vinna í silfrinu hennar Maríönnu en þar kom smá babb í bátinn þar sem ég hafði vægast sagt keypt köttinn í sekknum.  Silfrið var ónothæft eins og það var og erum við Ási í Annríki að vinna í að fá annað í staðinn.  Ef það heppnast ekki þá verð ég að kaupa annað silfur en það er reyndar möguleiki á að ég geri það hvort sem er þar sem mér fannst silfrið sem mér býðst mjög fallegt.

20150426_182735Blússan mín fyrir 20. aldar upphlutinn er að verða tilbúin og þá á ég eftir að sauma blússuna hennar Elínar Helgu.  Svunturnar allar tilbúnar, líka Olgu svunta, en alveg óvart eigum við mæðgur (Maríanna og ég) nú 3 svuntur hvor til að velja um.

Ég hlakka til 28. maí en þá verður þetta allt að vera tilbúið því þá er stefnt á stúdentsmyndatöku í fullum skrúða.  Þá verður sem sagt allt að vera orðið tilbúið í 20. aldar búningunum okkar mæðgna.

 

 

20150425_143422Haldin var handavinnusýning eldri borgara hér í sveit í dag og fengu þau faldbúninginn til að hafa til sýnis.  Það var gaman að geta sýnt hann og er fólk spennt að sjá búninginn tilbúinn.  Það er bara ágætt að fá smá pressu til að halda sér við efnið en ég er líka spennt að sjá faldbúninginn fullkláraðan.  Núna er eftir að klára að sauma í pilsið og svuntuna, sauma treyju og kraga og búa til spaðafaldinn.  Allt spennandi verkefni sem ég hlakka til að takast á við.

Á handavinnusýningunni var nágranni minn hann Oddleifur í Haukholtum með þennan fína grip sem er nú orðinn að staðalbúnaði í saumaherberginu eins og myndin á forsíðunni sýnir.  Alger eðalgripur. 🙂