2014-09-20 Smalamennskur 021Eina helgi á ári er skipulagið í föstum skorðum. Föstudagurinn fer í að sjóða hangiketið og græja og gera. Laugardagur byrjar um 6:30 þá er farið í fjós og ég undirbý kaffi fyrir 15-20 manns, kaffidrukkur, fjallkóngur að plotta með smölum, meiri kaffi drukkið og svo er haldið af stað. Milli 25 og 30 manns fara ríðandi eða gangandi út í óvissuna um hvernig slagurinn við birkið og þær fjórfættu á eftir að fara. Dagurinn líður smalarnir smala og eldabuskurnar elda, um kl 16 skila sér flestir inn í mat og þá er eins gott að hafa vatnið kalt og matinn heitan á borðum. Allir búnir að borða og farnir um kl 17 svona ef vel hefur tekist til. Nú þá er að finna óskil og hringja þau út og hleypa svo heimaánum í hagann sinn.
Sunnudagur er rólegri en þá er farið um Dalinn og gerð leyfturárás á þær fáu skjátur sem voguðu sér að verða eftir, þær fangaðar og settar í kerru.
Þetta er alltaf skemmtilegur en erfiður tími og ómetanleg öll sú hjálp sem við fáum frá vinum og ættingjum sem koma ár eftir ár og láta leiða sig í skóginn þar sem hann er svartastur, takk kæru vinir.
Veðurguðirnir ákváðu öllum til gleði að halda regngáttinni lokaðri í gær en blámóðan lá þó yfir. Í dag gátu þeir nú ekki haldið aftur af rigningunni öllu lengur enda alveg heilum degi sleppt sem var sennilega fullmikið.
Þessi helgi var semsagt að líða og stórir sem smáir fara þreyttir í rúmið í kvöld.
Saumaskapur fékk því frí þessa vikuna en bíður bara betri tíma.