Nýja árið er nú gengið í garð, maður lítur ósjálfrátt yfir farinn veg á svona tímamótum en einnig er horft fram á veginn. Það er náttúrulega margt sem hefur gerst á árinu 2016. Í vinnunni tek ég þátt í verkefni á vegum Microsoft sem er virkilega skemmtilegt.
Á árinu 2016 stendur uppúr í saumaskapnum að hafa klárað faldbúninginn á vordögum og fór útskriftin fram í Viðey. Þar komu saman fjöldi fólks í íslenskum búningum og nutu veitinga og áttu saman góðan dag. Þá lærði ég einnig að knippla á vordögum og var ég svo heppin að elskuleg frænka mín gaf mér gamalt danskt knipplbretti.
Á haustdögum fór ég á námskeið í að sauma karlabúning og er það skemmtilega ólíkt því að sauma þjóðbúning kvenna. Í karlabúningnum má maður leyfa sér grófari vinnu, en vinnubrögðin samt svipuð og í kvennbúningnum. Ég rifjaði einnig upp orkeringu og orkeraði blúndu framan á ermi á peysufötum og einnig á peysufatabrjóst.
Hugmyndin um að halda kynningu í kirkjunni fyrir gesti fékk smá byr undir vængi. Ég get ekki sagt að ég hafi lagt áherslu á að auglýsa þetta en kannski reyni ég að kynna þetta fyrir næsta sumar. Ég þyrfti samt að hafa annað húsnæði til að hafa fleiri búninga til sýnis, hver veit kannski leggst mér eitthvað til. Ég vann aðeins í heimasíðunni um þetta verkefni og má lesa sér til um þetta á tungufell.net.
Maríanna lærði í Skals á Jótlandi á haustönn og kom heim reynslunni ríkari. Það væri nú heillandi að fá smá aðstöðu til að geta sett upp t.d. vefstól eða eitthvað annað skemmtilegt til að nýta allar hugmyndirnar og handverkið sem hún lærði. Svo er náttúrulega næst á dagskrá hjá þeirri gömlu að skella sér á námskeið í Skals 🙂
Hugurinn er upptekinn við nýjar hugmyndir eins og venjulega og er eitt og annað að veltast um sem kannski ratar á þessa síðu síðar.
Árið 2017 verður örugglega gott ár og núna á vorönn verður haldið þjóðbúninganámskeið sem ég skipulagði og er það nú orðið fullbókað. Kannski verður hægt að gera eitthvað skemmtilegt í framhaldi af því til að vekja almenning til vitundar um íslenska þjóðbúninginn.