Jæja þá eru jólin gengin í garð og ofátið stendur sem hæst. Það er gaman að geta þá gripið í saumana á meðan snjókallar og rennibrautir eru myndaðir utandyra hjá litlu snúllu og stóra bróður.
Pilsið hjá Kristlaugu tókst bara ágætlega og stelpan tók sig bara vel út í upphlutnum sínum. Það er alltaf að brjótast í mér hvort ég muni geta boðið uppá að hjálpa fólki með gamla búninga t.d. að laga og breyta. Tíminn á eftir að leiða það í ljós hvort það sé raunhæft.
Ég dróg fram baldýringuna núna um jólin til að hafa nú eitthvað í höndunum og er byrjuð á stóru blómunum, vonandi get ég klárað þau fljótlega. Pilsið gæti einnig fengið smá athygli svona ef það ætlar að halda áfram með svona veðurlag þar sem illa er fært utandyra eins og stendur. Ég hlakka bara til næsta árs að halda áfram þessu skemmtilega verkefni sem ég er í, sauma og sjá útkomuna verða að veruleika.
Undirbúningur fyrir námskeið og þjóðbúningakynningu stendur sem hæst og ég vona að það verði næg þátttaka til að námskeiðið geti orðið. Það verður örugglega skemmtileg þjóðbúningakynning 10. janúar.
Næst á dagskránni er nú samt messan á Gamlársdag en þá skapast alltaf yndisleg stemning þar sem fólk kemur saman í óupphituðu Guðshúsinu í sínu fínasta pússi og syngur saman gömlu sálmana. Bara yndislegt.