Þá hefur haustið kvatt sér hljóðs og komin mynd á venjur komandi tíma. Vinnan komin í fastar skorður, börnin í skólann og senn líður að réttum. Kindurnar farnar að láta sjá sig og óska eftir inngöngu í betri haga en úthaginn er farinn að falla. Nokkrir góðir dagar komu í þessari viku en haustrigningin hefur aftur tekið völdin enda búin að vera síðan í vor meira og minna.
Af saumaskap og handavinnu er það helst að frétta að ég byrjaði á nýju blómi og er það miðjublómið aftan á pilsinu sem þýðir að það er að verða hálfnað. Nú stefnir í námskeiðahald í balderingu og það verður gaman að læra enn nýtt handbragð.
Eftir að róta í kössum fann ég hálfprjónaðan kjól á Elínu Helgu sem ég er að hugsa um að endurhanna og klára fyrir jól. Alltaf gaman að rekast á gleymda hluti.
Að lokum má nefna að ég setti berjauppskeru barnanna í pott og sauð krækiberja-, bláberja- og jarðarberjasultu sem samstarfsfélagarnir fá kannski að smakka á morgun.
IMG_0008.JPG

IMG_0006.JPG