Nú er haustið komið og því fylgir vinnan og haustverkin.  Það er búið að slá há og brátt líður að réttum og smalamennskum.  Nemendurnir eru komnir til vinnu og nóg að snúast í kringum upphaf skólaárs.  Veðrið er búið að vera óvenju gott og hlýtt þannig að það má eiginlega kalla það sumarauka.

Lítið hefur gerst í saumaskap þar sem hin eiginlegu námskeið byrja ekki fyrr en í september.  Ýmsar hugmyndir hafa þó fengið að gerjast í huganum og ég held að ég saumi mér bláan 19. aldar upphlut með silfri til að snerpa aðeins á saumaskapnum og festa hann í minni.  Svo ætla ég að sauma mér peysufatapeysu í framhaldi en það kemur allt í ljós hvenær það verður.  Nú langar mig líka í kniplbretti og ég vona að ég geti fengið eitt slíkt í Danmörku en þar liggja þau á lausu á sölusíðum.

Við stelpurnar fórum á Tvær í Tungunum og hittum þar á hana Birnu frænku sem var að selja þessi fallegu sjöl sem við Elín Helga skörtuðum í messunni.

Messan var haldin í Tungufellskirkju 23. ágúst.  Það voru um 45 manns sem lögðu leið sína í messu en nokkuð minna var um þjóðbúninga í þetta sinn.  Það verður bara meira næst 🙂

Ég labbaði uppá Hestfjall um síðustu helgi og það var mjög gaman að fara þangað.  Þetta var ekki erfið ganga en skemmtileg í góðum félagsskap.