Jæja nú er heilmikið búið að gerast í upphlutnum, eða réttara sagt upphlutunum. Ég er vel á veg komin með þá báða. Á síðustu dögum og vikum hefur gefist tími til saumaskapar þar sem ekki hefur viðrað vel til nokkurs annars en inniveru. Við Elín Helga erum búnar að vera að dunda okkur hún bakar og býr til ís og ég sauma.
Sá rauði er nú kominn með leggingar aftaná og snúran er að festast á svona ein og ein. Teinarnir fastir framaná og búið að varpa allt um kring. Baldýringin búin bara eftir að setja kantalíur og pallíettur. Pilsið faldað, svuntan klár og blússan saumuð saman.
Maður verður nú glæsilegur þegar þetta verður allt komið saman. Svo ekki sé nú minnst á dýrgripina mína sem ég fjárfesti í um daginn til að setja framaná. Ohhh ég hlakka svo til að sjá þá aftur.
Sá svarti er búinn að fá leggingar aftaná og teina að framan, það er næst að máta og það þarf einnig að máta blússuna til að geta klárað hana. Þá ætti stelpan að vera klár í útskrift en ég neita því ekki að ég var svona farin að hafa áhyggjur af því að ég myndi ekki geta klárað upphlutinn fyrir lok maí, en það er víst langt þangað til hann kemur 🙂
Við tókum góða saumahelgi 28. og 29. febrúar þegar við tókum bæði laugardag og sunnudag. Þá gerðist nú margt og góð heimavinna þar til við hittumst næst 22. mars. Svo er það lokahelgin á námskeiðinu 18.-19. apríl.