20150502_151530Síðustu dagar hafa einkennst af misjafnlega góðu gluggaveðri og hefur stundum verið algerlega ómögulegt annað en að nýta sér veðrið til gönguferða og útiveru.  Vorið er líka alltaf fullt af söng bæði manna og fugla.  Tónleikar hafa verið í röðum og það er alltaf gaman að fara og njóta afrakstrar vetrarins.  Kór ML og Karlakór Selfoss voru með tónleika á Flúðum í þessari viku og svo er Karlakór Hreppamanna með tónleika og ball um næstu helgi.  Það er nóg að gera á öllum vígstöðvum.

Nú er maí kominn sem þýðir að það er óðum að styttast í útskrift frumburðarins frá ML.  Það þýðir líka að ég verð að haska mér við að klára öll þau hálfnuðu verk sem eru hafin.  Gamli upphluturinn minn fékk nýtt skjuð og smá lagfæringu eftir mátun en ég var búin að víkka hann áður.  20150429_175623Blússan mín er klár svo og allar svunturnar.  Nú er bara að bíða eftir silfrinu hennar Maríönnu sem ég vona að fari nú að skýrast með í síðasta lagi í lok þessarar viku.  Þá er að klára upphlutinn hennar Elínar Helgu en það ætti nú ekki að vera mikil vinna í honum.

Eigum við eitthvað að ræða skóna sem ég gat keypt mér með hjálp góðra vina, en þessir verða sko notaðir við upphlutinn og faldbúninginn hægri vinstri.

Í gær var eitt ár síðan ég fékk pilsið mitt í hendurnar, ég vona að ég geti skartað fullkláruðum búning eftir ár.

Vorið virðist ætla að verða bjart og kalt sem minnir á vorið í þá gömlu daga þegar maður var ungur 🙂 en við vonum nú að sumarið fari vel með okkur.