Þá er London yfirstaðin og margt og mikið að sjá þar eins og vant er.  Ég þræddi efnisbúðirnar og sá margt fallegt en keypti ekki neitt, yfirleitt er það þannig að maður sér eitthvað og veit bara að það er hið eina rétta og þá er alltaf best að kaupa það bara.
Sýningin var mjög fróðleg að vanda og margt að sjá.  Það má lesa um hana hér.

20150201_180241Í gær var saumadagur í Annríki og ég er að rembast við að klára að baldýra borðana á upphlutinn.  Námskeið í upphlutssaumi byrjar 14. febrúar á Flúðum og ég vona að þá verði ég búin að baldýra. Það verður spennandi að byrja að sauma upphlutinn eða réttara sagt upphlutina þar sem ég verð að sauma Maríönnu upphlut samhliða mínum.

Í gær sá ég líka góss, ohh svo fallegt, ég féll alveg kylliflöt og seinnipart dags var það mitt. Ég þarf nú ekki að veltast lengur með að eiga ekki millur og belti á faldbúninginn minn og ekki skemmir að millurnar eru með englamynstri og beltið með samskonar blómamynstri eins og er í kirkjunni.  Þetta er allt að smella saman.

Ég er svo spennt að sjá hvernig möttullinn sem Olga frænka er að sauma kemur út.  Þetta er allt svo spennandi að helst vildi ég bara setja allt annað á hilluna og sitja bara og sauma daginn út og daginn inn, en það er víst ekki í boði svona fyrst um sinn.

Í dag sunnudag á mamma mín afmæli, hún spókar sig á sólarströnd suður á Kanarý og ég vona að hún hafi það bara gott þar á afmælisdaginn sinn.  Núna liggur sú stutta með hita og pest þannig að næsta vika verður væntanlega eitthvað lituð af því.