Fjallafrúin -saumar-
Um Fjallafrúna
Fjallafrúin -saumar-

Ella Jóna
Ég heiti fullu nafni Elín Jóna Traustadóttir og er fædd árið 1971 og uppalin í Unnarholti í Hrunamannahreppi. Núna bý ég í Tungufelli í Hrunamannahreppi sem er efsti bærinn í sveitinni. Ég á þrjú börn Maríönnu fædda 1995, sem er gullsmiður, Einar Trausta fæddan 1998 hann er atvinnuflugmaður og Elínu Helgu fædda 2011. Maðurinn minn heitir Svanur Einarsson og er hann frá Tungufelli og erum við ógift. Við stundum búskap með kýr, kindur og hesta.
Ég starfa aðallega í tölvu og upplýsingatækni fyrir skóla. Einnig er ég áhugamanneskja um saumaskap og þá sérstaklega þjóðbúninga.
Ég hef rekið Brúðarslör.is frá árinu 2001 og sauma hringapúða og brúðarslör. Árið 2022 bættust VæruKær og Hnoðri við í vöruúrvalið. VæruKær er kúru koddi til að sofa með milli fóta eða í fanginu. Hnoðri er ungbarnahreiður hentugur fyrir aldur frá nýfæddu til um 6 mánaða.
Ferilskrá
Árið 1989-90 fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna.
Árið 1992 útskrifaðist ég sem stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni.
Árið 1994 útskrifaðist ég sem íþróttakennari frá ÍKÍ.
Árið 1997 byrjaði ég sem íþróttakennari við Flúðaskóla en um 2003 fór ég að kenna upplýsinga- og tæknimennt.
Haustið 2004 byrjaði ég í Framhaldsdeild KHÍ í Upplýsinga- og tæknimennt og kláraði það haustið 2006.
Árið 2008 hóf ég störf hjá TRS á Selfossi og starfaði þar til 2015 við tölvuþjónustu. Þar var ég aðallega að þjónusta skóla á suðurlandi.
Árið 2015 hætti ég endanlega sem kennari við Flúðaskóla.
Árið 2014 hóf ég störf hjá Menntaskólanum að Laugarvatni sem verkefnastjóri og gegni þeirri stöðu í dag.

Ég hef lengi haft áhuga á saumaskap og hef frá barnsæsku saumað nánast öll mín spariföt sjálf. Upphaf þess að ég fór að sauma brúðarslör var að ég eignaðist bók um hvernig ætti að sauma brúðarkjóla og samkvæmiskjóla. Ég sá aftast í bókinni að þar var einnig sagt frá því hvernig ætti að sauma brúðarslör og datt í hug að þarna væri eitthvað sem ég gæti gert þar sem þetta væri örugglega ekki saumað hér á Íslandi. Ég vatt mér í að panta efni að utan og saumaði tvö slör til prufu og sendi síðan tölvupóst til allra brúðarkjólaleiga á höfuðborgarsvæðinu. Ein svaraði mér en það var hún Sólveig sem átti þá Brúðarkjólaleigu Dóru. Henni leyst mjög vel á og þá fór boltinn að rúlla.
Haustið 2005 festum ég og móðir mín Elín Guðfinnsdóttir kaup á nýrri Designer 1 saumavél og tók þá móðir mín (kölluð Ellý) við að sauma hringapúðana.
Árið 2019 keypti ég nýja saumavél Designer Brilliance 80 og er hún kærkomin viðbót við saumaskapinn.
Á árunum 2020 og 2021 fór ég að íhuga hvernig ég gæti sameinað nokkur áhugamál í eitt. Í upphafi árs 2021 fór ég á námskeið í grafískri vinnslu. Undir nafni Fjallaspuna eru spunnar nýjar heimasíður fyrir lítil sprotafyrirtæki í nágrenninu. Ég hef unnið í heimasíðugerð í um 20 ár og hef því mikla tæknilega þekkingu á því.
Saumaskapurinn hélt áfram að þróast og upp úr því varð til samvinna okkar Unnar að koma Unnar púðunum á framfæri til styrktar Downs-félagsins. Einnig hannaði ég mína eigin púða Spunapúðana sem eru fallegir útsaumaðir púðar.
Í ársbyrjun 2022 datt í hausinn á mér hugmyndin að VæruKær. Í fljótfærni minni hélt ég áfram að þróa VæruKær og ég hef það á tilfinningunni að þessi hugmynd mín geti undið uppá sig.
Fjallafrúin er nú orðin að veruleika og hún mun verða í samstarfi við spunaverksmiðjuna Fjallaull sem staðsett er í nágrenninu.