Það er farið að síga á seinni hlutann á þessari saumatörn.  Núna er allt komið í hús og þökk sé Ása í Annríki á ég nú nothæft silfur og hlaut ekki mikið fjárhagslegt tjón af viðskiptum mínum við gullsmiðinn ónefnda.  Núna er bara að fara að raða saman og ljúka við hlutina.

Hugmyndin mín sem ég hef stundum rætt hér hefur fengið byr undir vængi og eins og gengur og gerist þróast hún áfram. Ég setti inn umsókn um styrk í Uppbyggingarsjóð Suðurlands til að stofna Fræðasetur um íslenska þjóðbúninga, skart og handverk. Ekkert langur titill 🙂 en síðan er það nú svo að ég er alltaf svo spennt að ég er byrjuð á heimasíðunni og hlakka til að sýna samstarfsfólki mínu hana næsta fimmtudag.  Meira um þetta síðar þegar meiri skriður er kominn á verkið.

Rigningin kom loksins með smá meiri hita, það hafðist að sá korninu í vikunni.  Sauðburður er hafinn en fer rólega af stað og það er farið að síga á seinni hlutann á skólanum hjá Maríönnu og Einari Trausta.  Nú fylgjast allir útskriftarnemar vel með fréttum þar sem útskriftarferðin þeirra er í uppnámi vegna verkfalla, en við vonum nú bara að það leysist fyrir brottför.