Dagarnir hafa liðið í sumarfríi frá vinnu en heima er amstrið alltaf það sama.  Heyskapur búinn og kuldinn heldur áfram.  Þetta er bara búið að vera ágætis saumaveður og það sést kannski helst á því að ég er núna búin að sauma í pilsið, það kláraðist 27. júlí.  Því er ekki að neita að það læðist að mér tómleikatilfinning yfir að hafa ekki eitthvað til að grípa í inní saumaherbergi.   Ég fór í bæinn í vikunni og fékk skófóður hjá Hildi og það er líka komið á þannig að núna er bara að bíða eftir að geta sett líningar á og fella pilsið.

Ég get ekki beðið eftir að fá næstu verkefni í hendur en það er að sauma í borða á treyjuna og kragann.  Svo eru öll aukaverkefnin sem ég stefni að í vetur.  Vonandi verður eitthvað af því sem ég stefni á að gera að veruleika, ef allt gengur að óskum gæti ég orðið saumakona í framhaldi, en meira um það síðar.  Safnahugmyndin mín er ennþá í þróun og nú fer að verða grundvöllur á að koma henni á næsta stig, bara gaman.

Heilinn er smátt og smátt að gíra sig inn í haustið og heilasellurnar farnar að vinna aðeins hraðar til að vera tilbúnar í vinnu.  Ég hlakka til að takast á við verkefni vetrarins og ég er líka með fögur fyrirheit um að halda mér á hreyfingu í vetur en þar sem ég er að vinna meira við tölvu þá er ég ekki eins mikið á hreyfingu í vinnunni.  En stiginn er drjúgur og verður óspart notaður.