Ég er ekki alveg viss um hvernig ég á að skrifa þetta orð, en athöfnin er skemmtileg. Við fórum í fyrsta tímann í balderingu á miðvikudag og það var fróðlegt og skemmtilegt. Fyrsta laufið orðið til og það næsta að fæðast. Hugmyndin að balderuðu borðunum er líka að verða til, þetta kemur allt smátt og smátt. Ég er líka búin að sauma smá í búninginum nokkrir pottar og laufblöð litu dagsins ljós.
Alltaf klárast eitt og eitt í saumaherberginu en núna er komin upp hillan sem ég málaði í sumar og ljósin, vá þvílíkur munur. Þá er eftir að festa strauborðið á sinn stað og fá nokkra tengla í vibót. Fór í smá vinnuskipti við rafvirkjann þar sem hann vantaði viðgerð á buxum og mig vantaði tengingu á ljósum.
Haustið kemur af fullum þunga og snjórinn farinn að láta sjá sig. Sláturtíð í fullum gangi og mesti skandallinn að nú er ekki hægt að fá vambir lengur, hvert er íslenska matargerðarlistin að fara?
Í dag var vígður nýr prestur til embættis í Hrunaprestakalli, gamall skólafélagi og MLingur þar á ferð. Óskar og Una í Hruna eins og hann sagði sjálfur frá, það verður örugglega gaman að vinna með honum í kirkjustarfinu.