Árið 2015 er búið að vera gott saumaár. Í upphafi árs var námskeið í þjóðbúningasaumi þar saumaði ég mér 19. aldar upphlutinn fyrir faldbúninginn. Í framhaldi af því námskeiði saumaði ég upphlutinn á Maríönnu og lagaði minn upphlut og einnig barnaupphlutinn fyrir Elínu Helgu. Ég kláraði að sauma út í pilsið og kláraði það. Byrjaði á nýjum 19. aldar upphlut fyrir mig sem er langt kominn. Saumaði nokkrar svuntur og tvær blússur og síðast en ekki síst lærði ég að flauelisskera. Núna er það langt komið og það sem er framundan er að klára borða framan á treyjuna og svo að sauma hana í lok vetrar.
Þetta eru spennandi tímar og svo gefandi að geta skyggnst inn í þessa þjóðbúningaveröld sem er svo spennandi og í senn hulin dulúð. Þjóðbúningurinn okkar hefur alltaf verið að manni fannst ein hilla en nú hef ég lært að þessi veröld er heill fataskápur fullur af fallegum klæðum.
Það er einnig gefandi og skemmtilegt að hafa tekið þátt í stofnun Fræðafélags um íslenskan handverksarf sem mun vonandi geta miðlað meiri þekkingu til landsmanna um þjóðbúninginn okkar.
Ég vona að árið 2016 verði ekki síðra og að ég geti klárað faldbúninginn og kannski byrjað á einhverju nýju og spennandi.